? Ég er ekki í liði. Get ég verið með ?
Einfalt: Þú sendir okkur póst á [email protected] eða mætir á skráningarkvöldið og lætur drullusokkinn vita að þig vanti lið. Það eru alltaf bæði skraplið og lið sem vantar liðsfélaga, bæði karla- og kvennamegin, svo þetta er ekkert vandamál.
? Hvað mega margir vera í liði ?
Engin takmörk eru fyrir fjölda skráðra í lið en einungis 6 eru inná í einu í hverju liði.
? Mega stelpur og strákar vera saman í liði ?
Stelpur mega vera með í liðum í karladeild en strákar mega ekki vera í liðum í kvennadeild.
? Hvar fæ ég armböndin mín og er hægt að bæta við liðsmönnum fram á síðustu stundu ?
Armböndin eru afhent skráningakvöldi Mýrarboltans í Einarshúsi á föstudagskvöld. Þeir sem mæta mjög seint geta fengið sín armbönd gegn framvísun skilríkja hjá mótsstjórn á keppnissvæði á laugardegi. Hægt er að kaupa fleiri armbönd á sömu stöðum og allt fram á síðustu stundu er hægt að bæta við liðsmönnum ef keypt eru auka armbönd.
? Er skylda að vera í búningum ?
Já og nei. Verðlaun eru veitt því liði sem er í flottustu búningunum og eru mörg lið, sérstaklega kvennamegin, sem leggja mikið upp úr búningagerð. Það er ekki skylda að vera í íburðarmiklum búningum, en það er samt skylda að vera í einkennandi fötum eins og samlitum stuttermabolum eða með samstæða hatta eða eitthvað þvíumlíkt.
? Hvaða titlar eru í boði ?
Það er breytilegt milli ára í hvaða flokkum aukaverðlaun eru veitt. Jafnan eru veitt verðlaunin Skítugasti leikmaðurinn. Stundum hefur skemmtilegasta liðið verið valið af sérstakri dómnefnd. Ef einhver sérstök tilþrif eru sýnd, eru oft veitt verðlaun fyrir það. Þannig fékk einn ónefndur markmaður einu sinni verðlaun fyrir að fara út af vellinum (hann hélt það væri kominn hálfleikur). Liðið hans tapaði leiknum vegna marksins sem liðið fékk á sig fyrir vikið.
? Hver er leiktíminn og hvað eru margir inná í einu ?
6 manns eru inná í einu. Flest lið hafa 10-12 leikmenn innanborðs, enda leyfilegt að skipta inná eins oft og vilji er til. Sjá síðu um reglurnar í Mýrarbolta. Leiktími er örlítið breytilegur en hefur yfirleitt verið um 15 mínútur (2X7).
? Hvernig er best að vera búinn ?
Hver og einn hefur sinn stíl í útbúnaði, en hægt er að hafa þetta í huga.
Skór: Þó sumir segi skó ekki skemmast í mýrarboltanum, er ljóst að þeir verða aldrei samir ef þeir fara í drulluna. Best er að nota gamla strigaskó. Mikilvægt er að taka með sér teip því sogið er svo mikið í drullunni að teipa þarf skóna við ökklann. Óþarfi er að vera í takkaskóm (og jafnvel verra) og legghlífar og slíkt er óþarfa pjátur. Sumir eru berfættir og líkar vel. Öðrum finnst best að vera í thermos-sokkum eða ullarsokkum, því maður er blautur í fæturna allan tímann sem maður er að keppa og milli leikja og það getur orðið kalt ef maður er í bómull.
Búningar: Sjá að ofan. Fólk er jöfnum höndum í stutterma og langerma bolum, og í stuttbuxum og síðbuxum.
Annar búnaður: Gott er að vera með nóg af ruslapokum til að klæða sig í eða setja undir sig í bílnum sem maður fær far með niðrí bæ, því þó maður fari í ána og skoli af sér er alltaf eitthvað eftir sem klínist í bílinn.
? Áfengi ?
Áfengi er leyft á hátíðinni svo langt sem það nær gagnvart landslögum en mótstjórn áskilur sér rétt til að senda fólk heim sem er sér ekki til sóma. Sá réttur hefur óspart verið nýttur í gegnum tíðina og gildir hann jafnt um þátttakendur sem gesti.