Með hækkandi sól og snjóleysis birtir til í hugum Ísfirðinga, þeir hætta að tuða yfir landsbyggðarstefnu ríkisstjórnarinnar. Menn sem unnu við snjómokstur endurheimta réttmæta virðingu og stjórn Mýrarboltafélagsins byrjar að brosa á ný. Það sem Ísfirðingar gera þó hvað best á sumrin er að taka á móti gestum, bæði erlendum sem og innlendum. Nú vill svo til að í dag mætir fjöldi erlendra ferðamanna á svæðið, þeir koma þó ekki með skipi heldur flugvél og alla leið frá lítilli eyju sem kallast Vestmannaeyjar. Þeir komu þó ekki af fúsum og frjálsum vilja heldur vegna þvingana frá harðstjórunum í KSÍ. Það vill verða erfitt að fá Eyjamenn til Vestfjarða nema þá til þess að sækja sér Ísfirska maka og draga þá aftur út á eyjuna litlu. Mýrarboltafélag Íslands vill því af gefnu tilefni henda fram enn einni áskoruninni sem gæti jafnvel fallist undir veðmál. Áskoruninni skal beint til Hermanns Hreiðarssonar þjálfara ÍBV og hljómar hún svo:

 

Mýrarboltafélag Íslands býður Hermann Hreiðarsson og félaga í ÍBV velkommna vestur á Ísafjörð og vill nýta tækifærið og skora á Hermann. Áskorunin felst í því að ef ÍBV vinnur ekki BÍ/Bolungarvík í leiknum í kvöld að þá mæti Hermann vestur á Verslunarmannahelginni og verði yfirmaður dómaramála á EM í Mýrarbolta. Einnig skal hann draga með sér David James af góðmennskunni einni saman því á Ísafirði er eini sénsinn fyrir þennan fyrverandi landsliðsmarkmann að verða evrópumeistari í einhverju. Mýrarboltafélag Íslands telur engar líkur á að Hermann skorist undan þessari áskorun enda sannur Íslenskur endajaxl sem lætur lítið ef eitthvað hræða sig.

Mýrarboltafélag ÍSLANDS

Share