Upphaf leikja, innköst, útspörk o.fl:
· Leikur hefst með því að dómarinn kastar boltanum aftur fyrir sig inn á völlinn.
· Þegar skorað hefur verið mark, hefst leikur að nýju á markspyrnu frá því marki sem skorað var í. Dómari gefur merki þegar hefja skal leik að nýju.
· Innköst, markspyrnur og hornspyrnur skulu teknar þannig að bolta er sleppt úr hendi og sparkað. Bannað er að skora viðstöðulaust úr slíkum spyrnum. Varnarmenn standi a.m.k. tveimur kloflengdum frá.
· Í aukaspyrnum er boltanum stillt upp og spyrnt. Varnarmenn skulu þá standa a.m.k. þremur kloflengdum frá.
· Vítaspyrnur skulu teknar átta álnum (rúmlega 3m) frá marklínu. Boltanum skal stillt upp og spyrnt.
· Vítateigur nær tvo faðma (u.þ.b. 3m) út frá marki, og alla leið út að hliðarlínum. Markmaður og varnarmenn njóta vafans, þ.e. ef markmaður tekur boltann með höndum á grensunni, eða ef varnarmaður brýtur af sér á grensunni.
Tæklingar:
· Það er leyfilegt að ýta og stjaka við framanfrá eða af hlið. Ekki er þó ótakmarkað hversu harkalega má hrinda og er það dómarans að meta hvar mörkin liggja. Bannað er að hrinda aftanfrá.
· Það er bannað að sparka í menn og kýla.
· Það er bannað að toga harkalega í föt og útlimi. Þó skulu dómarar sjá í gegnum fingur sér með smávægilegt tos og nudd.
Spjöld og brottvísanir:
· Dómari getur gefið gult spjald leikmanni til viðvörunar þyki honum það nauðsynlegt. Ástæður fyrir gulu spjaldi geta verið ýmsar.
· Meiði leikmaður annan getur dómarinn gefið honum bleikt spjald sem þýðir að hann verður að kyssa á bágtið, nema fórnarlambið þvertaki fyrir slík atlot. Neiti leikmaður að kyssa á bágtið skal gefa honum svart spjald (sjá neðar).
· Brjóti leikmaður illa af sér með kýlingum, spörkum, grófu peysutogu eða niðurrifi aftan frá, og/eða ræni annan leikmann upplögðu marktækifæri eða svívirði og niðurlægi dómara eða vallarstarfsmenn skal dómari sýna honum svarta spjaldið sem þýðir að leikmaðurinn þarf að leika með hauspoka í 2 mínútur. Sá sem hauspokann ber verður að vera inni á vellinum, fari hann útaf kemur hann ekki aftur inná (nema hann fari óvart út af sökum slæms skyggnis).
· Gerist leikmaður sekur um svívirðilegan og/eða síendurtekinn dónaskap gagnvart öðrum leikmönnum, dómara, starfsmönnum eða gestum getur dómari vísað honum úr leiknum með því að sýna honum öll þrjú spjöldin í einu. Lið fær þá ekki að setja nýjan mann inn á í hans stað. Í framhaldinu tekur drullusokkaráð, sem í eiga sæti núverandi og fyrrverandi drullusokkar og aðalritari Mýrarboltafélags Íslands, ákvörðun um það hvort leikmaður fái frekari refsingu, t.d. leikbann eða útilokun frá leikjum dagsins.