Mótið 2011
Mýrarboltamótið er haldið ár hvert á Ísafirði. Sex eru inná í einu, en jafnan eru liðin þó skipuð 9-15 manns, því drullan þreytir menn fljótt. Vinahópar taka sig saman og mynda lið, einstaklingar taka þátt með skrapliðum svokölluðum.
Á föstudeginum er skráningarkvöld, peppskemmtun og ball, ókeypis fyrir þátttakendur. Á laugardeginum er dúndurball í Edinborgarhúsinu. Á sunnudagskvöldinu er dú-dú-dú-dúndurball á félagsheimilinu í Hnífsdal.
Íþróttafélögin BÍ og KFÍ sjá um stóran hluta undirbúnings keppninnar, en mótið er þó rekið og skipulagt af Mýrarboltafélagi Íslands, félagasamtökum Ísfirðinga sem eru ekki í þessu fyrir peninginn heldur skemmtunina og bjórinn eftirá.
18 ára aldurslágmark er á þátttöku, nema börnum er leyft að taka þátt í drulluteygjunni.
Verðskrá 2011
Skráningargjald er 7000 kr. á þátttakanda árið 2011. Innifalið er lokahóf, og ball og að sjálfsögðu þátttaka í skemmtilegasta íþróttamóti ársins á Íslandi. Auk þess: ókeypis aðgangur að böllum á föstudagskvöldinu og laugardagskvöldinu.
Hægt er að vera með í kvölddagskránum en ekki drulla sig út. Það kostar 5500 (fimm og fimm). Kaupa þarf miðana á skráningarkvöldinu á föstudeginum eða á mótssvæði á laugardegi eða sunnudegi.
Aðgangseyrir bara á lokaballið er 2500. Miðinn er keyptur á ballinu sjálfu (það sem á skemmtanaiðnaðarmáli kallast hurð).
Þátttaka í mótinu og aukagreinum er einungis heimil þeim sem er með þátttakandaarmband. Þó er ein undantekning: börn undir 18 ára mega vera með án armbandsins. Við erum nefnilega svo barngóð.
Síðast uppfært: Föstudagur, 15. júlí 2011 21:44